Annar mentorafundur Vaxtarrýmis

Annar mentorafundur Vaxtarrýmis var haldinn mánudaginn 24. október síðastliðinn. Við þökkum þessum mentorum kærlega fyrir sitt framlag til nýsköpunar á Norðurlandi.

-Sesselía Birgisdóttir – Forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum. Sesselía hefur starfað sem stjórnandi í yfir 16 ár bæði hérlendis og í Svíþjóð. Hún hefur frá árinu 2021 starfað sem forstöðumaður nýsköpunar- og markaðsmála hjá Högum. Þar áður starfaði Sesselía sem framkvæmdastjóri þjónustu-, sölu- og markaðssviðs hjá Íslandspósti. Á árunum 2016 til 2019 starfaði hún sem sem forstöðumaður stafrænna miðla og markaðsmála hjá Advania. Sesselía starfaði í Svíþjóð í 10 ár sem ráðgjafi í stafrænni miðlun og nýsköpun. Sesselía var ein af stofnendum bókunarþjónustunnar Red Apple Apartments sem var með starfsemi í yfir 100 borgum í Evrópu. Sesselía hefur lokið M.Sc. námi í stjórnun mannauðs, með áherslu á þekkingar- og breytingarstjórnun frá Lundar háskóla í Svíþjóð og M.Sc. námi í alþjóðlegri markaðsfræði og vörumerkjastjórnun frá Lundar háskóla í Svíþjóð. Hún er aðalmaður í stjórn Sýnar og situr einnig í stjórn hugbúnaðarfyrirtækisins AGR Dynamics.

-Stefán Pétur Sólveigarsson, verkefnastjóri Hraðsins miðstöðvar nýsköpunar á Húsavík. Stefán Pétur hefur starfað við hönnun frá árinu 2005 á hönnunarstofum, sem sjálfstæður hönnuður, hannað vörur til framleiðslu fyrir íslensk fyrirtæki og sem kennari í Listaháskóla Íslands.

-Karl Guðmundsson, forstjóri Florealis ehf. Karl hefur yfir 20 ára reynslu af vöruþróun, sölu- og markaðsmálum. Hann starfaði um árabil í Bandaríkjunum í ýmsum stjórnunarstöðum m.a. hjá Össuri, Biomet og Ekso Bionics. Karl er sjúkraþjálfari að mennt og hefur MBA gráðu frá Rady School of Management UCSD. Hann er forstjóri Florealis ehf. en var áður forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu um þriggja ára bil.

-Hreinn Þór Hauksson, framkvæmdastjóri viðskipta- og vöruþróunar hjá Íslenskum verðbréfum er með meistargráðu í frumkvöðlafræði og nýsköpun frá Háskólanum í Lundi frá 2012 og hefur mikinn áhuga á öllu efnahagsumhverfi og aðstöðu frumkvöðla á Íslandi. Hreinn hefur starfað hjá Íslenskum Verðbréfum hf. frá 2014 og þá fyrst sem sjóðstjóri sérhæfðra sjóða, verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða. Hreinn starfaði í nokkur ár sem framkvæmdastjóri sjóðastýringarfyrirtækisins ÍV sjóða hf. sem er í eigu Íslenskra verðbréfa og stýrði þar vöruþróun,markaðssetningu og allri daglegri starfsemi í mjög hörðu samkeppnisumhverfi. Hreinn starfar nú sem framkvæmdastjóri viðskipta- og vöruþróunar hjá Íslenskum verðbréfum og kemur þar að margvíslegum verkefnum sem krefjast þróunar og uppbyggingar allt frá frumskipulagningu og greiningu til fjármögnunar og áframhaldandi reksturs. Hreinn situr í mörgum stjórnum félaga og verkefna sem tengjast með einum eða öðrum hætti starfsemi og verkefnum á vegum Íslenskra verðbréfa. Hreinn hefur tekið þátt í sölu verkefna og sömuleiðis tekið þátt í fjárfestingum í verkefnum. 

-Rannveig Björnsdóttir er dósent við auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannveig hefur yfir 25 ára reynsla af rannsóknum og nýsköpun í samstarfi við íslenska matvælaframleiðendur og tengdar greinar, með áherslu á bætta nýtingu og verðmætasköpun úr ónýttum og verðlitlum hliðarafurðum. Hennar áhersla hefur einnig verið á þróun verðmæta úr ýmiskonar náttúruafurðum með sjálfbærum hætti. Rannveig hefur mikla reynslu af handleiðslu nemenda í hagnýtum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í sumarstarfi svo og til bakkalár- og meistaragráðu og einnig nokkrum til doktorsgráðu.

Auðjón Guðmundsson er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs hjá Nóa Siríus. Auðjón hefur yfir 20 ára reynslu við stjórnun markaðs- og sölustarfs, bæði á neytenda- og fyrirtækjamarkaði, ásamt útflutningi. 

Sigurður Markússon er forstöðumaður nýsköpunardeildar á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði Landsvirkjunar. Sigurður hefur víðtæka reynslu af nýsköpun í orkumálum og hefur leitt og þróað fjölda rannsóknar- og nýsköpunarverkefna. Helsta þekking hans er á Orkumálum, samspili orku og iðnaðar, jarðhita og matvælaframleiðslu.

Previous
Previous

Þriðji og síðasti mentorafundur Vaxtarrýmis

Next
Next

Fyrsti mentorafundur Vaxtarrýmis 2022