FJÁRFESTAHÁTÍÐIN Í SÉRFLOKKI

Teymi Norðanáttar. Mynd: Daníel Starrason

Þriðja árið röð komu allir helstu fjárfestar landsins saman á Siglufirði til fundar við frumkvöðla sem vinna að verkefnum tengdum auðlinda-, orku- og umhverfismálum. 

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin í fyrsta skipti árið 2022 en þá var áherslan eingöngu á sprotaverkefni á Norðurlandi. Vegna þess hversu vel tókst til var ákveðið að bjóða og höfða til sprotafyrirtækja hvaðanæva að landinu. Í ár væri engin breyting þar á og voru níu fyrirtæki valin á hátíðina úr hóp fjölda umsókna, þar af eitt gestaverkefni frá Færeyjum.

Aurora Abalone – Suðurnes
Circula – Suðurland
Circular Library Network – Höfuðborgarsv. (allt landið)
FoodSmart Nordic – Norðurland vestra
Humble – Höfuðborgarsvæði og Sandgerði
Nanna Lín – Norðurland eystra
Olafsdottir - Gestaverkefni frá Færeyjum
Skógarafurðir – Austurland
Surova – Höfuðborgarsvæði

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði hátíðina og brýndi gesti til verka í málaflokknum en áskoranirnar eru miklar.

,,Markmiðin um græn orkuskipti og samdrátt í losun eru skýr.  Við stefnum á allsherjar græna vegferð og enginn landshluti má vera skilinn eftir…”, sagði Guðlaugur Þór meðal annars í ávarpi sínu. Mikilvægt væri að virkja hugvitið í öllum landshlutum og að hátíð sem þessi væri góður vettvangur til að tengja fjármagn við  lausnir sem myndi hjálpa okkur að takast á við þessar aðgerðir.

Guðmundur Gunnarsson, stýrði umræðum í pallborðum dagsins. Haraldur Hallgrímsson hjá Landsvirkjun, Katrín Sigurjónsdóttir hjá Norðurþingi, Sigríður V. Vigfúsdóttir hjá Primex, Pétur Arason hjá Húnabyggð og Daði Valdimarsson hjá Rotovia stikluðu á stóru um mikilvægi þess að taka frumkvæði og forystu þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun og því að sveitarfélög og svæði marki sér stefnu og fylgi þeim eftir þegar kemur að verðmætasköpun. Breyttir tímar væru frá því sem áður var og að samfélög þurfi að gera upp við sig hvað þau vilja og vinna markvisst að því búa til sín eigin tækifæri.

Yfirskrift pallborðs var hnattræn hugsun - staðtengd starfsemi

Seinna pallborðið ávarpaði mikilvægi fjölbreytileika og jafnréttis í nýsköpunar og fjármögnunarumhverfinu. Hekla Arnardóttir hjá Crowberry Capital, Arne Vagn Olsen hjá Lífeyrissjóð verzlunarmanna, Ragnheiður H. Magnúsdóttir hjá Nordic Ignite og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé hjá Öldu ræddu þar að þó ýmislegt gott sé í gangi og að margt sé á réttir leið, þurfum við að ávarpa með markvissum hætti, hvernig fjárfestar geta stutt við fjölbreytileika t.d. í nýjum fyrirtækjum, hvað snertir stjórnir, eignarhald osfrv. Jafnrétti og fjölbreytileiki eykur getu og hæfni fyrirtækja til að ná árangri. 

Pallborð um jafnrétti og fjárfestingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir,  menningar- og viðskiptaráðherra ávarpaði gesti í seinni hluta dagskrá þar sem frumkvöðlar voru með fjárfestakynningar í bátahúsi Síldarminjasafnsins. Í framhaldi fjárfestakynninga fór fram stefnumót frumkvöðla og fjárfesta og annarra lykilaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi í Salthúsinu, nýjum safnkosti Síldarminjasafnsins og er þetta í fyrsta sinn sem viðburður er haldinn þar. 

Það var samdóma álit gesta og þátttakenda að svona vettvangur sé gríðarlega mikilvægur fyrir verkefni í leit að fjárfestingum þar sem þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðarsamvinnu. 

Að verkefninu Norðanátt standa EIMUR og landshlutasamtökin á Norðurlandi SSNE og SSNV með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu. Hraðið, miðstöð nýsköpunar á Húsavík kemur einnig að verkefninu.  

Bakhjarlar Fjárfestahátíðarinnar 2024 eru Tækniþróunarsjóður, KPMG, Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins og KEA.

Previous
Previous

Frjór farvegur til nýsköpunar í Færeyjum

Next
Next

Átta teymi freista gæfunnar á Fjárfestahátíð Norðanáttar