Óhefðbundin upplifun og bærinn kringum iðngarðinn
Norðanátt í Víking til Noregs; Ferðasaga 2/3
Norðanátt var á 5 daga ferðalagi um norður Noreg í janúar 2023. Í síðustu færslu greindum við frá heimsóknum í Bodø og höldum við ferðinni hér áfram.
Bærinn kringum iðngarðinn
Eftir stutt innanlandsflug sótti hópurinn klasaráðstefnu norður Noregs í bænum Mo i Rana, þar sem reynt var örlítið á tungumálafærni hópsins, en hún fór fram að öllu leyti á móðurmáli norðmanna. Á málefnaskrá voru forsvarsmenn frá iðngarðinum í Mo i rana (Mo Industripark), Elkem, Freyr Batterí og fleiri öflugum fyrirtækjum.
Það mætti segja að atvinnulífið í Mo lifist og hrærist í kringum iðngarðinn sem stendur í hjarta bæjarins, en þar starfa um 2500 starfsmenn í 110 fyrirtækjum. Í Mo i Rana búa um 21.000 íbúar og er borgin sú þriðja stærsta í Norður-Noregi.
Hópnum var boðið afar áhugaverða skoðunarferð um iðngarðinn, sem er jafnframt einn stærsti iðnaðargarður Noregs og tók ferðin um 20 mínútur með rútu, svo stór er garðurinn. Þrátt fyrir umfang og stærð, er garðurinn langt kominn í orkunýtingu og hringrásarhagkerfinu en þar eru t.a.m. um 400 GWst endurunnin árlega, sem samsvarar árlegri orkunotkun tæplega 24.000 heimila. Þá eru framtíðaráætlanir iðngarðsins metnaðarfullar, en þær tengjast meðal annars vetnisframleiðslu, lífkolefnis- og rafhlöðutækni og átaksverkefnum í fullnýtingu úr fiskeldi ásamt glatvarma.
Mynd t.v: Hluti af hópnum í Mo Industripark / Mynd t.h. Norðanátt heldur ræðu á hátíðarkvöldverð klasaráðstefnunnar (Mynd: Arven)
Á hátíðarkvöldverði klasaráðstefnunnar var samankomin hópur af fólki sem starfa í mismunandi klösum í Noregi. Stjórnarformaður Orkuklasans orðaði það vel þegar hann sagði að; “við þurfum að nýta okkur heppnina sem okkur er gefin” og var þá meðal annars að vitna í heimsókn Norðanáttar frá Íslandi og að við þyrftum að nýta krafta hvors annars meira til að breyta heiminum til hins betra. Það er mjög öflugt klasastarf í norður Noregi og virkilega lærdómsríkt tækifæri að kynnast því þar sem við erum að stíga okkar fyrstu skref í þá átt hér á landi.
Óhefðbundin upplifun og vísindakennsla
Arven eða Arfurinn, er í fararbroddi á grænu vaktinni, en markmið þess er að byggja upp þekkingar- og upplifunarmiðstöð fyrir almenning og ferðamenn í kringum vatnsvirkjanir. Þar er hægt að læra allt um endurnýjanlega orku og hvernig norska orkukerfið er uppbyggt, hvernig hægt sé að leysa orku áskoranir framtíðarinnar og byggja verðmætasköpun fyrir framtíðina. Við upplifuðm stemmninguna í gegnum sýndarveraleika gleraugu í kynningu hjá starfsmanni Arven, sem var virkilega skemmtileg hugmynd. Uppsprettan kom upprunalega frá Íslandi þó verkefnið sé að taka þetta skrefinu lengra en við höfum gert hér á landi.
Hópnum fannst sérstaklega skemmtilegt að kíkja í Vitensenter, sem er vísindamiðstöð þar sem meginþema er náttúruauðlindir, stafræn umskipti og nýsköpun. Þar upplifðum við hvað hægt er að læra mikið með því að leika sér og hafa gaman. Allskonar þrautir, leikir og fræðsla t.d um það hversu mikla orku þarf til að knýja áfram eina þvottvél svo eitthvað sé nefnt. Allt er sett upp á mjög skilvirkan og skemmtilegann hátt þar sem fólk á öllum aldri getur gleymt sér í gleðinni og fræðst um leið, eins og sjá má frá myndum
Óvænt stopp í Mosjöen
Meðan hópurinn ræddi við fólk í Kunnskapsparken Helgeland og lék sér í þrautunum í Vitensenter í Mo i Rana, brá Ottó sér til Mosjöen, á vinnustofu ACT cluster sem rekinn er á vegum Kunnskapsparken Helgeland, um nýtingu glatvarma frá iðnaði. Fulltrúi Alcoa, sem rekur álbræðslu í Mosjöen rétt eins og á Reyðarfirði, stjórnaði vinnustofunni en þau búa yfir miklum glatvarma sem nýta mætti á hitaveitu bæjarins, og til allskyns iðnaðaruppbyggingar. Ferðin var óvænt, en út frá tengslamyndum eftir klasaráðstefnna í Mo i rana, fékk Ottó boð um að sitja vinnustofuna og stökk á það tækifæri.
Við á Íslandi, eigum gríðarmikið magn af illa nýttum og ónýttum varma, sem full ástæða er að líta á sem auðlind nú þegar æ þrengist að orkubúskap hitaveitna víða um land. Þeir möguleikar sem hafa verið í umræðunni hér heima til nýtingar á glatvarma t.d. til allra handa ræktunar og þurrkunar, voru líka ræddar á þessari vinnustofu. Það er alveg ljóst að frændur okkar í Noregi eru að hugsa sömu hugsanir og við varðandi bætta nýtingu varmaauðlinda sinna.
Ferðasaga Norðanáttar í Víking til Noregs heldur áfram. Næst segjum við frá ferðum okkar til Tromsö og segjum frá ferðalokum…